VSV Veggskreyting

About This Project

Tillagan Hafið kallar eftir Daníel Imsland hafnaði í fyrsta sæti í samkeppni um skreytingar á suðurgafli nýrrar frystigeymslu VSV við Kleifar í Heimakletti. Tveir keppendur/höfundar deila með sér þriðja sæti. Alls bárust ellefu tillögur frá sjö höfundum.

Vinnslustöðin stóð að samkeppninni í samvinnu við Vestmannaeyjabæ. Auglýst var eftir „fjölbreyttri, spennandi og frumlegri hugmynd en jafnframt raunhæfri“ í keppnislýsingu og vísað til þess að húsgaflinn væri á áberandi stað, vel sýnilegur frá suðurhöfn og ferjubryggju.

Höfundur tillögunnar í fyrsta sæti fær hálfa milljón króna í sigurlaun, fyrir annað sæti eru 250 þúsund krónur í verðlaun og 125 þúsund fyrir þriðja sætið.

Þorsteinn Óli Sigurðsson dómnefndarformaður sendi þátttakendum bréf í dag þar sem úrslit eru rakin og rökstuðningur dómnefndar. Þar segir meðal annars:

„Reglur samkeppninnar kváðu um að tillögurnar skyldu metnar út frá útliti og umhverfi (50%), tengingu við atvinnuvegi og samfélag (25%), hagkvæmni (15%) og frumleika (10%).

Dómnefnd gaf stig fyrir hvern þátt og úrslit urðu sem hér segir (tillögur í þriðja sæti urðu jafnar að stigum og skipta með sér verðlaunafénu):

1. Hafið kallar eftir Daníel Imsland.

Rökstuðningur dómnefndar: Tillagan byggist á sterkri mynd af sjómanni og ólgandi hafi. Myndefnið á vel við staðinn og gæti komið vel út. Höfundur sækir liti í nánasta umhverfi, sterk skírskotun er í atvinnuhætti og líf Eyjamanna. Kanna þarf betur tæknilega framkvæmd og útfærslu verksins.

2. Spegilgafl eftir Bjarka Zophoníasson.

Rökstuðningur dómnefndar: Tillagan gerir ráð fyrir að þekja gafl byggingarinnar spegli og endurspegla þannig umhverfið. Staðarandinn er endurspeglaður og ávallt í takt við líðandi stund. Tillagan er tæknilega erfið í framkvæmd og gæti skapað vandamál fyrir sjófarendur vegna endurkasts sólarljóss.

3. Dægurlagatextar eftir Davíð Árnason og Ölduform 2 eftir Gunnar Júlíusson.

Rökstuðningur dómnefndar:

Dægurlagatextar. Tillagan byggist á því að þekja gafl byggingarinnar með hluta úr dægurlagatextum og er nokkuð frumleg. Tillagan er einföld í framkvæmd, gæti sómað sér vel á gaflinum en hætta er á að smæsti textinn sjáist illa úr fjarlægð.

Ölduform 2: Einföld og stílhrein mynd af ölduformi eins og heitið bendir til. Gæti sómt sér vel á gaflinum. Einföld í framkvæmd.

Heildarmat dómnefndar

Lítill munur var á verðlaunatillögunum í stigum talið og mjög mjótt á munum, sér í lagi á það við um fyrsta og anna sæti.

Fáar tillögur bárust, einungis ellefu talsins, sem kom dómnefndinni nokkuð á óvart.

Tillögunum hefur verið skilað til Vinnslustöðvarinnar til frekari umfjöllunar og rétt er að rifja upp eftirfarandi úr reglum um samkeppnina:

Vinnslustöðin áskilur sér rétt til að nýta að hluta eða öllu leyti vinningstillögurnar eða breyta án samráðs við höfunda. Velja önnur efni eða aðferðir við ásetningu en val listamanns.““

Dómnefnd samkeppninnar

  • Þorsteinn Óli Sigurðsson tæknifræðingur, formaður, skipaður af  VSV;
  • Pétur Jónsson landslagsarkitekt frá Landark;
  • Margrét Rós Ingólfsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar;
  • Hafþór Halldórsson, verkefnastjóri hjá Vestmannaeyjabæ.

Trúnaðarmaður dómnefndar var Haraldur Bergvinsson, starfsmaður VSV.

Viðbúnaður vegna Kötlu gömlu hefur áhrif

Á sama tíma og samkeppnin stóð yfir hófst umræða innan Vinnslustöðvarinnar um stöðu mála og viðbúnað vegna mögulegra hamfaraflóða í kjölfar eldgoss í Kötlu.

Jarðvísindamenn og aðrir sérfræðingar telja að sjávarborð gæti hækkað um allt að sjö metra við Vestmannaeyjar í skamman tíma eftir að stórgos hefst og ráðamenn VSV ákváðu að bregðast við vánni með aðgerðum og sérstökum ráðstöfunum. Þar er einkum horft til frystigeymslunnar, enda eru jafnan geymd í henni verðmæti upp á marga milljarða króna á hverjum tíma.

Líklegast er að steyptir sökkulveggir frystigeymslunnar verði hækkaðir úr 1,2 metrum í 3-4 metra. Sú leið er til tæknilegrar athugunar innan VSV. Hugmyndin hefur verið kynnt bæjaryfirvöldum í Eyjum óformlega en verður kynnt þeim formlega þegar mál skýrast.

Margfalt hærri sökkulveggir leiða augljóslega af sér að flötur til skreytingar á suðurgafli hússins verður minni en ella. Ekki stendur samt til að breyta fyrri ákvörðun um listskreytingu á húsgaflinum,  hún stendur óhögguð. Framkvæmdir vegna flóðavarna munu hins vegar hafa áhrif á hvernig skreytingin verði útfærð svo vel fari.

Category
ARTWORK